Verkefnið Phönix; Uppfærslur

Fyrir þá sem hafa áhuga á að fylgjast með verkefninu Phönix þá bendum við á facebook síðu verkefnisins. Hægt er að fylgjast með nýjustu uppfærslum, ljósmyndum og myndböndum. Hægt er að skiptast á skoðunum og spyrja út í ákveðna þætti rannsóknarinnar.

Þessi vefsíða hér, Fönix-félag um neðansjávarfornleifafræði, verður ekki notuð til að koma með stöðuuppfærslur eða birta sérstaklega framgang verkefnisins nema eitthvað sérstakt mun bera á góma. Allir eru velkomnir á hina síðuna.

Hlekkur inn á síðuna má finna hér;     Verkefnið Phönix á Facebook

Birt í Íslensk verkefni, Verkefnið Póstskipið Phönix | Færðu inn athugasemd

Lockheed Ventura I (+1944)

Skammt undan strönd Álftaness liggur flak af breskri herflugvél af gerðinni Lockheed Ventura – PV-2 (1). Nánar tiltekið rúmlega 300 metrum sunnan meginn við Hliðsnes. Hafði vélin skömmu áður tekið á loft frá Reykjavíkurflugvelli og brotlenti hún í sjónum. Öll áhöfn vélarinnar fórst (2).

Lockheed Ventura voru léttar sprengjuflugvélar mikið notaðar til veðurathuganna, njósna og eftirlits m.a. eftir kafbátum á hafsvæðinu kringum Ísland. Þær voru notaðar af bæði breska og bandaríska hernum á tímum seinni heimstyrjaldarinnar. Hér á Íslandi voru þær m.a. notaðar af breska flughernum (Royal Air Force – RAF), 251 herdeildarinnar (Squadron). Sú herdeild hafði aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli og líka að Kaldaðarnesflugvelli áður en honum var lokað.

Lockheed Hudson/Ventura á flugi.

Flugvélaflakið

Flugvélin brotlenti á sjónum og sjálfsagt tvístraðist við snertingu við hafflötin. Brot úr flugvélinni liggja á víð og dreif um hafsbotninn. Nánast allt ál og grindarefni er horfið. Aðeins stærstu og öflugustu hlutar vélarinnar eru enn sýnilegir þar sem þeir liggja í sandinum á rúmlega 10 metra dýpi. Allt annað er nánast horfið og er kannski ekki við öðru að búast eftir 60 ára legu á grunnsævi. Mótorar vélarinnar eru enn með skrúfublöðin festa við þá, en þeir liggja með nokkru millibili. Síðan er hluti af hjólastelli vélarinnar enn sýnilegt, sjá mynd hér að neðan (3).

Fundist hefur 50.cal Browning vélbyssa úr flugvélinni sem hefur varðveist og prýðir hún félagsheimili Sportkafarafélags Íslands (SKFÍ) í Nauthólsvík. Gaman væri að fá nánari upplýsingar um hvenær henni var lyft og gerð upp.

Árið 2003 fundust við æfingaköfun hjá lögreglunni (RLS) og slökkviliði höfuðborgarsvæðisins (SHS) tvær djúpsprengjur sem hvort um sig innihélt 215 kg af sprengiefninu Torpex sem er víst mun öflugra en TNT. Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar (LHG) eyddu þessum sprengjum skömmu eftir að þær fundust. Neðst á þessari síðu má finna krækjur á fréttum af fundi sprengjanna og eyðingu þeirra.

Dýptarkort í þrívídd þar sem flakið af Lockheed Ventura vélin hvílir undan strönd Álftaness. Tölvukort AÞE-2009

Dýptarkort af brotlendingarsvæðinu. AÞE-2009

Hluti af lendingarbúnaði vélarinnar þar sem það hvílir á rúmlega 10 metra dýpi. Mynd AÞE-2009.


Nánar um Lockheed Ventura sprengju & eftirlitsflugvélarnar.

Fyrirrennari Lockheed Ventura herflugvélarinnar voru bresku Lockheed Hudson. Ventura vélarnar voru helst aðeins þyngri og rétt aðeins stærri. Voru þær hannaðar í tveimur útgáfum, PV-1 og PV-2 og þær fyrstu byrjuðu að fljúga í lok júlí mánaðar ársins 1941.

Stórir og öflugir mótorarar voru í vélinni en þeir voru tveir af gerðinni Pratt & Whitney „Double Wasp“ R-2800-51A 4G vélar. Þeir voru hvor um sig 2000 hesthöfl. Lockheed vélin náði allt að 300 mph hraða (480 km) og gat hæst flogið í 26.300 feta hæð (8,015km).

Vélin hentaði ágætlega til eftirlits vegna langdrægnis en drægnin var um 1.448km. Vænghaf þeirra var 19.96 metrar og heildarlengd 15.77 metrar. Óhlaðin vó vélin 8.8 tonn en fullhlaðin rúmlega 14 tonn.

Ef flakið undan strönd Álftaness sé Lockheed Hudson vél af gerðinni PV-2 þá var hún búin fimm framvísandi vélbyssum, sem síðar var þeim fjölgað upp í  átta vélbyssur en aðeins þremur ef um hefur verið að ræða PV-1 en gat verið búin átta 5 tommu (127 mm) flugskeytum og leitarradar.

Lockheed Hudson sprengjuflugvél á Kaldaðarnesflugvellinum í apríl 1941

Athugasemdir:

1)  Ekki hef ég fundið neinar skriflegar heimildar um þetta flugslys, umfram því sem finna má á netinu, sjá m.a. krækjur hér að neðan. Áhugavert væri að fá upplýsingar um fundin á sínum tíma.

2)  Sama og athugasemd (1).

3) Heimildir sem búið er að staðfesta með köfunum yfir flakasvæðinu.

Uppfærsla 26.10.2012

Fundist hefur atvikaskýrsla dagsett, 19.05.1944. Þar kemur fram að á þessum degi hafi Kanadísk ?, Lockheed Ventura I farist í sjónum 1 mílu suðvestan Hafnarfjarðar, klukkan 10:10.  Gera má ráð fyrir því að þetta hafi verið umrædd Lockheed Ventura herflugvél. Ekki er líklegt að fleiri slíkar vélar hafi farist á þessum slóðum í seinni heimstyrjöldinni. Ef svo væri þá þyrfti ný leit að fara í gang.

Samkvæmt þessari atvikaskýrslu þá fórst þessi Lockheed Ventura I, s/n: JT 846, skömmu eftir flugtak er hún var á leiðinni til Prestwick, Skotlandi. Í vélinni voru tveir í áhöfn og einn farþegi. Fórust þeir allir. Tveimur líkum skolaði á land og einhverjum smáhlutum, log bók og fallhlíf, annað ekki.

Það voru Íslendingar sem voru vitni að slysinu og létu hermálayfirvöld vita.

Talið vera skriflegar heimildir, þær einu, sem fundist hafa frá tímum seinna stríðsins sem skýra frá því þegar vélin fórst í sjóinn.

Heimildir:

Birt í 20 - 21 öldin (+1900-2000), Flugvélaflök Íslandi, WWII (+1939-1945) | Ein athugasemd

Phönix vorleiðangur 2012

Rannsóknarleiðangur í flakið póstskipinu Phönix verður farinn í næstu viku og mun standa yfir frá 21.maí til 25 maí. Svo virðist vera að veðurspá sé viðunandi fyrir kafanir þessa daga. Vonum að ekki verði breyting á en undirbúningur hefur verið flókinn, ítarlegur og staðið yfir lengi. Margir munu koma að þessari rannsókn og verður spennandi að fylgjast með framvindunni. Mjög líklegt er að eitthvað nýtt megi koma í ljós og finnast. Fyrir áhugasama um leiðangurinn geta fylgst með á facebook síðunni um verkefnið Phönix en sú síða er mun betur uppfærð heldur en þessi hér sem mun líklega taka einhverjum breytingum á næstkomandi mánuðum.

Verkefnið Phönix á facebook

Á undirbúningsstað fyrir köfun.

Birt í Verkefni í vinnslu, Verkefnið Póstskipið Phönix | Færðu inn athugasemd

Verkefnið Póstskipið, vor leiðangur 2012

Vinna og undirbúningur hefur staðið yfir vegna vorleiðangurs okkar í flakið af Phönix.

Við höfum notað veturinn til að skrifa skýrslur, gera áætlanir og undirbúa okkur fyrir næstu skref. Höfum við einnig þurft að finna eða reyna að koma með lausnir á ákveðnum vandamálum sem komu upp í síðasta leiðangri.

Þörf er að auka nákvæmnina við neðansjávarrannsóknina enn frekar. Munum við því þurfa að leggja fleiri línur og afmarka svæðið betur. Við höfum fulla trú að það ætti að geta gengið.

Dagsetningar fyrir leiðangurinn eru komnar á hreint, plan A er 21 til 25 maí. Plan B er vikan í framhaldi af þessum dagsetningum. Það er bara von að það skapist veðurskilyrði á þessum dögum fyrir leiðangurinn.

Enn er verið að leita að hentugum bát fyrir verkefnið. Ýmislegt er verið að skoða. Það ætti að fara að skýrast og má gera ráð fyrir að um miðjan apríl ætti allir stærstu þættirnir að vera komnir á hreint.

Birt í 19 - 20 öldin (+1800-1900), Íslensk verkefni, Verkefni í vinnslu, Verkefnið Póstskipið Phönix | 2 athugasemdir

Ingvarsslysið (1906)

Kútter Ingvar ferst við Viðey. 20 manns farast.

Alla fyrstu vikuna í apríl 1906 hafði geysað stórviðri sunnanlands, og átti það eftir að versna. Fréttir bárust um að Kútter Ingvar, sem var í eigu Duus verslunar hefði sést suður í Garðsjó og hefði laskast í óveðrinu. Skemmdir hefðu orðið á seglbúnaði skipsins.

Kútter Ingvar í Kaupmannahöfn

Skömmu fyrir hádegi þann, 7. apríl, sást til fiskiskips frá Reykjavík. Töldu menn að þar væri komin Kútter Ingvar, en sökum veðurs var erfitt að sjá það með vissu. Þó voru allar líkur á því þar sem seglbúnaður þess skips var laskaður.

Áhöfn Ingvars ætlaði fyrst að sigla þá venjulegu leið milli Örfirseyjar og Engeyjar inn á Reykjavíkurhöfn, en náði því ekki sökum skemmds seglbúnaðar. Hraktist skipið norður með Engey, en síðan reyndu menn að sigla inn sundið milli Engeyjar og Viðeyjar. En sú leið er hættuleg skipum sökum grynninga og skerja syðst í sundinu, og þar fyrir innan. Það sem gerði þessa siglingu enn hættulegri var veðurofsinn og brimið á sundinu.

Þegar Kútter Ingvar var á móts við Viðeyjartún, steytti það á blindskeri. Talið er að skipverjar hafi reynt að kasta út akkeri til þess eins að halda skipinu föstu. Fólk í Laugarnesi og Viðey sáu þegar skipið strandaði.

Á þessum tíma var bátur í Viðey en sökum veðurs treystu menn sér ekki til að leggja í björgunarleiðangur. Þá sömu sögu var að segja frá Reykjavík, en þar urðu fjöldi fólks vitni að þessum hörmungum en gátu ekkert gert til að koma mönnunum til bjargar. Svo fór sem fór að nánast allir skipverjar enduðu í sjónum og týndu lífi sínu. Hafði einn skipverjanna náð að binda sig við siglutréð, en eftir 3 klukkustunda baráttu við hafið og veðraöflin fórst hann einnig.

Í þessu slysi dóu 20 manns, og urðu fjöldi fólks sjónarvottar af því án þess að geta nokkuð að gert. Mikið var rætt í kjölfar þessa slyss, og komu þá upp hugmyndir að hafa tiltækann björgunarbúnað eða bát.

Kútter Ingvar var gert til fiskveiða, 77 smálestir að stærð.  Kútter Ingvar var ekki eina skipið sem fórst þennan dag, en skipin „Emilie“ og „Sophie Wheatley“ hurfu einnig út á sjó. Með þessum þremur skipum fórust 68 manns, sem verður að teljast mikil blóðtaka á einum degi.

Mikið er til af heimildum um Ingvarsslysið, þeir sem hafa áhuga að kynna sér þessa sögu geta nýtt sér eitthvað af krækjunum sem eru hér neðar á síðunni.

Leitin að flaki Kútter Ingvars, akkerið finnst

Örlygur Hálfdánarson bókaútgefandi hafði forgöngu fyrir því að koma af stað leit að flakinu. Örlygur fékk í lið með sér Stefán S. Skúlason, kafara við leitina. Örlygur hafði sankað að sér gögnum og upplýsingum um atburðina og hófu skipulagða leit á slysstaðnum. Eftir einhverja leit og köfun á vettvangi fannst akkeri er talið vera úr flaki Kútter Ingvars. Akkerið fannst u.þ.b. 80 árum eftir atburðina.

Fundarstaður akkeris við Hjallasker

Þessu akkeri var komið fyrir í Viðey, og settur á það minningarskjöldur, til þess að minnast þessa sorglega slyss, sem og annarra sem urðu þennan dag. Stendur nú akkerið á ströndinni í Viðey og snýr að vettvangi slyssins, Hjallaskeri.

Ekki eru frekari heimildir fyrir því hvort eitthvað fleira hafi fundist af flakinu eða hvort reynt hafi verið að leita eitthvað frekar. Eftir slysið rak á fjörur í Viðey timbur úr Ingvari og voru fjalirnar m.a. notaðar til byggingar á íbúðarhúsi í eynni.

Þar sem nú eru meira en 100 ár liðin frá þessum atburði er flakið og allir mögulegir gripir eða munir sem tengjast því friðaðir skv. þjóðminjalögum.

Mynd úr lesbók mbl frá árinu 1986 þegar akkerinu var komið á þurrt land. Á myndinni eru Hjördís Þórisdóttir, Stefán S. Skúlason kafari og aðstoðarmaður hans, Óttar Sigurðsson.

mynd_09596cff mynd_f1eed8bd

 

Heimildir:

Birt í 20 - 21 öldin (+1900-2000), Íslensk verkefni, Skipsflök Íslandi | 4 athugasemdir

31. janúar 2012 (131 ár liðið) Staðan í janúar 2012

Þann 31. janúar n.k eru 131 ár liðin síðan póstgufuskipið Phönix sökk og hvarf sjónum manna, amk í þeirri mynd sem skipið var upphaflega byggt. Undanfarin þrjú ár, frá því að flakið fannst hefur verið alltaf að koma betri og betri mynd af því hvernig það lítur út í dag. Það er von okkar sem standa að þessari rannsókn að geta sýnt hvernig flakið lítur út í heild sinni, eftir að hafa legið neðansjávar í meira en heila öld.

Undirbúningur að næsta leiðangri í flakið er hafinn.

Fyrirhugað er að þessi leiðangur verði að einhverju leyti með öðru sniði en þeir leiðangrar sem við höfum farið í hingað til. Í grunninn er þó vinnan sú sama og markmiðin hafa ekkert breyst. Það sem er áætlað að gera núna er að vera með stærri bát til að auðvelda vinnuna við köfunaraðgerðinar. Slíkt mun minnka álagið á köfurum, auka botntímann og þá líka vonandi að geta fjölgað köfurum og aðstoðarmönnum við rannsóknina.

Ekki er búið að ákveða dagsetningarnar fyrir leiðangurinn, en líklegast verða gerðar tvær áætlanir. Menn eiga eftir að koma sér saman um þetta.
Enn er verið að vinna úr gögnum, myndum og myndbandsupptökum úr leiðangrinum okkar frá því í maí og erum við loksins farnir að sjá afrakstur vegna þess. Þó er enn nokkuð langt í land.


Birt í 19 - 20 öldin (+1800-1900), Íslensk verkefni, Verkefni í vinnslu, Verkefnið Póstskipið Phönix | Færðu inn athugasemd

Yucatan neðansjávar hellakerfið (fornar mannvistarleifar)

Hauskúpa finnst í neðansjávarhelli; ummerki eftir fyrstu Ameríkana?

Könnuðir finna mannvistarleifar sem kunna að vera af fyrstu Ameríkönunum.

Meðlimir PET samtakanna (Projecto Espeleológico de Tulum) er hópur manna sem sérhæfa sig í að rannsaka og kanna neðansjávarhella í Yucatan í Mexico. Alex Alvarez, Franco Attolini, og Alberto (Beto) eru meðlimir PET og hafa þeir rannsakað mörg hundruð metra af hellum og gjótum á svæðinu Quintana Roo.

Nýjasta rannsókn þeirra var gerð í djúpum hyl sem kallaður er Hoyo Negro,  Svarthol á íslensku. Þar gerðu þeir merka og einstaka uppgvötun er þeir fundu á botni hylsins leifar af manni, þ.e. hauskúpu og beinagrind. Talið er að hann hafi verið uppi á Ísöld eða nánar á“Mastodon tímabilinu“.

Hvar er Hoyo Negro? „Svartholið“

Að komast að Hoyo Negro er ekki auðvelt verkefni. Eftir að hafa ferðast 1200 metra (1,2 km) á scooterum “DPV”  (diver propulsion vehicle) í gegnum neðansjávarhellakerfið er fyrst komist að hylnum „Svartholinu“, Hoyo Negro.

PET kafararnir hafa skoðað og mælt „Svartholið“. Og hefur „Svartholið“ mælst 60 metra  djúpt og 36 metrar í þvermál. Hann er staðsettur innan Aktun-Hu hellakerfisins í Quintana Roo svæðinu.

Neðansjávarhellakerfið á þessu svæði hefur verið kortlagt og rannsakað kerfisbundið að þjálfuðum hellaköfurum. En PET  tengist alþjóðlega neðansjávarkönnuðum hjá GUE samtökunum (Glopal Underwater Explorers).

Nánari upplýsingar um fundinn má finna á þessum heimasíðum.Birt í Erlendar fréttir | Færðu inn athugasemd

SS Gairsoppa fundið (+1941)

SS Gairsoppa

Odyssey Marine Exploration (OME) tilkynnti í dag (26.sep 2011) að þeir hefðu fundið flakið af breska flutningaskipinu SS Gairsoppa sem hafði verið sökkt af þýskum  kafbát (U-101) í seinni heimstyrjöldinni, nánar þann 17. febrúar 1941.

SS Gairsoppa var á leið frá Indlandi til Bretlands þegar það varð eldsneytislítið í öflugum stormi, á Norður-Atlantshafi. Áhöfnin reyndi að ná til Írlands þegar það varð U-101 að bráð. Alls fórust 84 manns með SS Gairsoppa, aðeins einn komst lífs af.

OME var ekki að leita að þessu flaki í þeim tilgangi að fá heiðurinn af fundinum, en um borð í SS Gairsoppa voru um 7000 tonn af ýmsum verðmætum varningi, þar á meðal silfurfarmur að verðmæti 150 milljóna breskra punda. Hefur OME gert samning við bresk yfirvöld að þeir fái að halda 80% af andvirði þeirra verðmæta sem þeir nái að bjarga.

Björgun á verðmætum af hafsbotni er ekki ódýrt, slíkar aðgerðir er dýrar og mjög tímafrekar.  SS Garisoppa liggur á 4700 metra dýpi, í Norður-Atlantshafi, 300 mílur frá Írlandi.

Side Scan mynd af flaki SS Gairsoppa

Ljósmynd tekin af flaki SS Gairsoppa. Heimild Odyssey Marine Exploration.

Heimildir:

BBC News

Odyssey Marine Exploration

Myndband frá Odyssey á Youtube

Birt í 20 - 21 öldin (+1900-2000), Erlendar fréttir, WWII (+1939-1945) | Ein athugasemd

Eftir strandið: Póstskipið Phönix

Eftir strand póstskipsins Phönix voru skipbrotsmönnunum 24 skipt niður á bæi. Ekki var pláss fyrir alla á Syðra eða Ytra-Skógarnesi. Því voru þeir fluttir á næstu bæi eins og Miklaholti, Rauðkollsstöðum og Söðulsholti. Allt eru þetta bæir í Eyja og Miklaholtshreppi.

Skipbrotsmennirnir 24 voru misvel á sig komnir. Margir voru illa haldnir af kalsárum og varð læknir að taka útlimi af nokkrum þeirra. Einn skipbrotsmannanna lést nokkrum dögum eftir strandið, eða þann 12. febrúar 1881. Það var 1. matsveinninn á Phönix, Alexius Bech, þrítugur að aldri.  Hafði hann liðið hinar ógurlegustu kvalir og þá síðustu 4 sólarhringa sem hann lifði hafði verið vakað yfir honum. Alexius Bech var jarðaður í Miklaholtskirkjugarði 16.febrúar 1881.

En hvar er gröf Alexiusar ?

Fyrir nokkrum árum var farið að Miklaholtskirkjugarði til að reyna að finna leiði hans, en án árangurs. Mörg leiði er í garðinum og nokkur þeirra eru ómerkt. Stendur til á næstu misserum að fara sérstakan leiðangur til að reyna að finna hvílustað eina áhafnarmeðlims  póstskipsins Phönix sem grafinn er á Íslandi.

Birt í 19 - 20 öldin (+1800-1900), Íslensk verkefni, Verkefni í vinnslu, Verkefnið Póstskipið Phönix | Færðu inn athugasemd

HMS Investigator (+1848)

HMS Investigator var eitt af þeim skipum sem tóku þátt í stærsta leitarleiðangri á sínum tíma, leitinni að leiðangri Sir John Franklins. Sjá nánar um þann leiðangur hér.

Teiknuð mynd af HMS Investigator þar sem það var fast á ísnum

HMS Investigator var 422 tonna kaupskip sem var breytt til að standast þennan leitarleiðangur. Komst skipið tvo leiðangra á norðurskautið en það var síðan árið 1853 sem skipið festist á ís og neyddist ahöfnin til að yfirgefa það.

Skipið hvarf svo sjónum manna þar til flakið fannst í leiðangri í júlí 2010.

Side Scan sonar mynd af flaki HMS Investigator

Kafari við skrásetningu neðansjávar á flaki HMS Investigator

Sjá nánar á þessum síðum.

Heimasíða leiðangursmanna.
Park Canada
 
Myndband af flaki HMS Investigator
Youtube
 
Birt í 19 - 20 öldin (+1800-1900), Erlendar fréttir | Ein athugasemd